Hefur einhver pælt í frelsinu sem fylgir því að eiga blogg í hinum ólgandi sjó veraldarvefsins? Hérna get ég skrifað hvað sem ég vil. Hvað ég borðaði í morgummat og hvenær ég fór síðast á klósettið. Hvað mér finnst um sjónvarpsdagskrána, íraksstríðið og Bubba Morthens. Hvað fer í taugarnar á mér og hvað ekki. Ég get lofsungið fólk og rakkað það svo niður í skítinn aftur. Mis merkilegt og mis skemmtilegt.
Þetta get ég allt með því að ýtta á nokkra takka á lyklaborðinu. Ég get komið öllum mínum hugsunum á framfæri á augabragði.
Það er svo margt sem mig langar að geta og ekki bara geta heldur líka gera vel, vera góð í.
Mig langar að spila á gítar. Mig langar að prjóna. Mig langar að syngja. Mig langar að taka myndir. Mig langar að sauma föt. Mig langar að semja sögur. Mig langar að læra tungumál.
Nú get ég í sjálfur sér gert þetta allt saman. Mis vel auðvitað en ég sé fram á það að ég geti ekki orðið góð í þessu öllu og það er að fara með mig.
Langar ykkur ekki stundum til þess að geta gert allt vel?
Núna er ég að skrifa upp viðtal sem við Nanna, sérlegur uppeldisfræði hópfélagi minn, tókum í morgun. Við þessi skrif hef ég komist að því hvað við erum hrikalega illa máli farin þegar við tölum. Kannski ættum við einungis að tjá okkur í skriflegu formi?
Þú veist, náttla, það væri kannski... kannski myndi það bara ekkert virka en hérna, það hérna, þú veist, sakaði náttla ekkert að reyna bara. ég veit ekki, veit ekki hvort hérna, það væri, kannski væri það bara ógeðslega asnalegt eða... ég veit ekki.
Ég er ekki að reyna að skrifa gelgjulega. Við tölum svona í alvörunni.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að taktskyn mitt er of þróað fyrir venjulegan fjórskiptan eða þrískiptan takt. Hér eftir dansa ég einungis off-beat.