Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.
Í tilefni dagsins fór ég auðvitað og keypti mér ís á bílnum mínum sem eins og flestir vita er á sumardekkjum. Gæti ekki verið meira viðeigandi og ég fór bara á peysunni. Ég finn vel fyrir sumrinu og fagna tilkomu þess.
Svo bakaði mamma eina stærstu köku sem ég hef á ævi minni séð. Svona sumardagurinnfyrstiköku. Hún talaði ekki um neitt annað í gær heldur en þessa köku og var alltaf að spurja mig álits. Ég verð nú að viðurkenna það að mér var slétt sama og kannski má segja að ég hafi bara hlustað með öðru eyranu á það sem ég hlustaði yfir höfuð. En hún hlustar ekki á helminginn af því sem ég segi, sem auðvitað er alltaf merkilegt, þannig að þið þurfið ekki að vorkenna henni neitt mikið þrátt fyrir áhugaleysi mitt. Af lýsingunum að dæma vissi ég að kakan myndi verða skrautleg en á þessu átti ég nú samt ekki von.
Hér gefur að líta kökuna margumræddu.
Og svona lítur hún út að innan. Já, útlitið er greinilega ekki allt.
Ég gat ekki hamið mig þegar ég sá þetta og missti mig í trylltum hlátri og náði að smita Lillu frænku. Hún bað mig meira að segja að taka mynd af sér og kökunni.
Kakan vakti sko mikla lukku eins og sjá má. Ég held samt að Lilla hafi verið spenntari fyrir myndatökunni.
Eins og þið sjáið þá hef ég ósköp lítið að segja þessa dagana. Í rauninni svo lítið að ég er farin að blogga um köku. Ég nenni bara einfaldlega ekki að tala um sjálfa mig.
Ég get samt lýst yfir andúð minni á stiganum heima. Ég hef þrisvar dottið í honum og í öll skiptin meitt mig. Fyrst þegar ég var ellefu ára, þá tognaði ég illa á fæti og fór ekki í skólann daginn eftir. Svo þegar ég var 13 ára rúllaði ég niður seinni hlutann og fékk þann stærsta marblett sem ég hef á ævinni fengið og það á bakhlutann. Það má segja að þetta hafi verið svona fyndið dett eins og allir vona að sjá einhvern detta niður tröppurnar í gamla skóla. Það er bara ekki eins fyndið þegar stiginn er úr steypu. Svo var þriðja skiptið bara núna á þriðjudaginn. Ég er með næststærsta marblett sem ég hef fengið á bakhlutanum og einn á bakinu. Ég grét samt ekkert í þetta skiptið. Blótaði bara pínu, ekki mikið samt, og það er hætt að vera vont að sitja.
Ég hélt samt að ég væri sú eina úr fjölskyldunni sem hefði dottið í þessum stiga að einhverju ráði. Þá sagði Baldur mér frá því þegar hann vaknaði um miðja nótt fyrir nokkrum mánuðum og var svona ótrúlega óglatt. Hann þýtur upp stigann, hrasar samt og dettur og ælir svo yfir allan stigann.
Ég held að hann eigi vinninginn. Skemmtilegar sögur samt. Skemmtilegt blogg. Langt blogg. Held ég finni mér eitthvað annað að gera.
Pabbi ætlar að reyna að kaupa svona myndavél handa mér annaðhvort í fríhöfninni eða útlandinu.
Æh, bless