laugardagur, janúar 27, 2007

I've got blisters on my fingers.


Og það er satt.
Á ég að segja ykkur hvað er gott?

Eplajukkið hennar mömmu. Það er sko gott.

mánudagur, janúar 15, 2007

Lagasúpa

Einu sinni á ágúst kvöldi, segðu ekki nei, segðu kannski, kannski, kannski, syngið þið fuglar ykkar ljúfasta ljóðalag, margar gamlar sögur amma sagði mér, því ég er komin heim, fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, þykist öðrum þröstum meiri, ef þú kemur hér, þegar kvölda fer, hér stóð bær með burstir fjórar, kaupakonan hans gústa í vör, því ertu svona uppstökk því ertu svona endalaust vond við mig, og finna hve ljúft þeir láta, vertu hjá mér dísa þegar kvöldsins klukkur klingja, enginn er eins og þú belami, vorið er komið og grundirnar gróa, kata kát með ljósa lokka, tilvera okkar er undarlegt ferðalag, í ungum stúlkum þeir verða bálskotnir enn, hún var með einfaldan giftingarhring.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Eitt fagurt sumarkvöld

Einu sinni var ég að hlusta á Led Zeppelin á meðan ég var að gera háalvarlegan og mjög mikilvægan hlut í tölvunni (lesist sem bubbles). Ég var ekki beint með hugann við tónlistina nema allt í einu heyri ég Plantarann syngja eitthvað um Gollum í laginu Ramble On. Mig rak í rogastans. Hvað var í gangi? Gollum? Lord of the rings? Led Zeppelin? Af hverju, hvernig, ha!?? Ég dó ekki ráðalaus heldur vatt mér beint á google og fann texta lagsins. Hvað sé ég svo. Þar er ekki bara talað um Gollum heldur Mordor líka. Mér hafði þá ekki misheyrst. Við þetta hleyp ég með hraði inní herbergi og beinustu leið að bókaskápnum. Þaðan dreg ég út Led Zeppelin, the complete guide to their music. Ég fletti blaðsíðunum rösklega, enda orðin þó nokkuð spennt, þangað til ég finn þá réttu. Þar stendur að texti lagsins sé innblásinn af Hringadróttinssögu og Tolkien. Ég geng hægum skrefum aftur inní stofu, sest við tölvuna og hlusta á lagið aftur. Ákveðin spennulosun á sér stað og mér líður eins og ég hafi fundið tilgang lífsins. Á meðan ég velti fyrir mér hvernig ég geti notfært mér þessa vitneskju, til þess að bjarga heiminum til dæmis, átta ég mig á því að þetta er í rauninni ekkert merkilegt. Ég hætti öllum heimspekilegum pælingum med det samme og hélt áfram í bubbles. Gott lag samt.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Lítið gleður vesælan

Það þarf allt of lítið til þess að gleðja mig. Bara það að breyta um lit og setja hjartasetningu á bloggið mitt verður til þess að mér hlýnar um hjartarætur í hvert skipti sem ég opna síðuna.

Oj, hvað ég er væmin. Til þess að bæta upp fyrir það skal ég setja inn fleiri myndir af bítlasonum. Ég meina, hver hefur ekki gaman af því?


Jájá, hér er Julian Lennon, frumburður Johns Lennons. Reyndar svolítið gömul mynd. Mamma á plötu með þessum.


Svo er hér hinn Lennon sonurinn, hann Sean. Glöggir lesendur kannast kannski við þann grettna á myndinni því jú, mikið rétt þetta er hann Dahni.

Og bara til þess að leiðrétta allan misskilning þá ætla ég að gerast svo djörf og fullyrða það að Bítlarnir eru frægari en Britney Spears, sorrý stína.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Ég er ánægð.

Eftir að hafa legið í mikilli leti framan af degi ákvað ég, með dyggri hjálp Valborgar, að gera eitthvað í mínum málum. Sökum áðurnefndrar leti hafði ég hvorki nennt að klæða mig né nærast og klukkan var vel að ganga þrjú. Þó var ég búin að afreka það að fara í sturtu, sem er mjög stórt afrek þegar letin er nærri því komin upp í sögulegt hámark, þannig að upprifið var ekki eins erfitt og það hefði geta verið. Til þess að slá tvær flugur í einu höggi fórum við á bláu könnuna. Þannig neyddumst við til þess að fara út en höfðum jafnframt félagsskap af hvor annarri og ég gat fengið mér eitthvað í gogginn. Samlokan sem ég fékk mér var mjög góð og félagsskapurinn sömuleiðis. Það var mjög ánægjulegt. Svo fórum við í Frúna í Hamborg og þar keypti ég svo ótrúlega flott pils að það er ekki eðlilegt. Þannig að dagurinn hefur verið nokkuð góður svona á heildina litið. Í gær fór ég svo í bíó þar sem Baldur bróðir splæsti þannig að ég kom út á sléttunni eftir þá bíóferð. Ekki má svo gleyma seinasta þætti Króníkunnar sem var einnig í gærkvöldi og mamma var svo góð að taka upp fyrir mig. Hann endaði mjög vel og allir voru svo hamingjusamir að maður gat ekki annað en hrifist með. Ég mæli jafnframt með því að fólk spreyti sig á þessari síðu hér vegna þess að hún er skemmtileg.

Jahá, eintóm hamingja á þessum bæ. Þess vegna skulum við ekki minnast á það að skólinn byrjar aftur á morgun og tónó líka þannig að ég þarf að fara að mæta aftur í hljómfræði. Svo eru víst próf á næsta leiti en það skiptir ekki einu einasta máli vegna þess að í dag er ánægð.