þriðjudagur, janúar 09, 2007

Eitt fagurt sumarkvöld

Einu sinni var ég að hlusta á Led Zeppelin á meðan ég var að gera háalvarlegan og mjög mikilvægan hlut í tölvunni (lesist sem bubbles). Ég var ekki beint með hugann við tónlistina nema allt í einu heyri ég Plantarann syngja eitthvað um Gollum í laginu Ramble On. Mig rak í rogastans. Hvað var í gangi? Gollum? Lord of the rings? Led Zeppelin? Af hverju, hvernig, ha!?? Ég dó ekki ráðalaus heldur vatt mér beint á google og fann texta lagsins. Hvað sé ég svo. Þar er ekki bara talað um Gollum heldur Mordor líka. Mér hafði þá ekki misheyrst. Við þetta hleyp ég með hraði inní herbergi og beinustu leið að bókaskápnum. Þaðan dreg ég út Led Zeppelin, the complete guide to their music. Ég fletti blaðsíðunum rösklega, enda orðin þó nokkuð spennt, þangað til ég finn þá réttu. Þar stendur að texti lagsins sé innblásinn af Hringadróttinssögu og Tolkien. Ég geng hægum skrefum aftur inní stofu, sest við tölvuna og hlusta á lagið aftur. Ákveðin spennulosun á sér stað og mér líður eins og ég hafi fundið tilgang lífsins. Á meðan ég velti fyrir mér hvernig ég geti notfært mér þessa vitneskju, til þess að bjarga heiminum til dæmis, átta ég mig á því að þetta er í rauninni ekkert merkilegt. Ég hætti öllum heimspekilegum pælingum med det samme og hélt áfram í bubbles. Gott lag samt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home