miðvikudagur, janúar 03, 2007

Ég er ánægð.

Eftir að hafa legið í mikilli leti framan af degi ákvað ég, með dyggri hjálp Valborgar, að gera eitthvað í mínum málum. Sökum áðurnefndrar leti hafði ég hvorki nennt að klæða mig né nærast og klukkan var vel að ganga þrjú. Þó var ég búin að afreka það að fara í sturtu, sem er mjög stórt afrek þegar letin er nærri því komin upp í sögulegt hámark, þannig að upprifið var ekki eins erfitt og það hefði geta verið. Til þess að slá tvær flugur í einu höggi fórum við á bláu könnuna. Þannig neyddumst við til þess að fara út en höfðum jafnframt félagsskap af hvor annarri og ég gat fengið mér eitthvað í gogginn. Samlokan sem ég fékk mér var mjög góð og félagsskapurinn sömuleiðis. Það var mjög ánægjulegt. Svo fórum við í Frúna í Hamborg og þar keypti ég svo ótrúlega flott pils að það er ekki eðlilegt. Þannig að dagurinn hefur verið nokkuð góður svona á heildina litið. Í gær fór ég svo í bíó þar sem Baldur bróðir splæsti þannig að ég kom út á sléttunni eftir þá bíóferð. Ekki má svo gleyma seinasta þætti Króníkunnar sem var einnig í gærkvöldi og mamma var svo góð að taka upp fyrir mig. Hann endaði mjög vel og allir voru svo hamingjusamir að maður gat ekki annað en hrifist með. Ég mæli jafnframt með því að fólk spreyti sig á þessari síðu hér vegna þess að hún er skemmtileg.

Jahá, eintóm hamingja á þessum bæ. Þess vegna skulum við ekki minnast á það að skólinn byrjar aftur á morgun og tónó líka þannig að ég þarf að fara að mæta aftur í hljómfræði. Svo eru víst próf á næsta leiti en það skiptir ekki einu einasta máli vegna þess að í dag er ánægð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home