laugardagur, janúar 14, 2006

Sleepover

Dóttir vinkonu mömmu er að gista hjá okkur. Ég er búin að horfa á tvær bíómyndir með henni og hef ekki skemmt mér svona vel síðan að ég uppgötvaði plússtöðvar (þær gerðu mér það kleypt að sofa fram að hádegi í jólafríinu en missa samt ekki af That 70's show). Fyrst horfðum við á Home alone 4 og síðan hvenær hafa home alone myndirnar klikkað spyr ég nú bara? Ætli það verði ekki einnig að teljast mikill plús að hafa einhvern við hliðina á sér sem lætur mann vita þegar eitthvað fyndið er í þann mund að fara að gerast. "Horfðu vel, það sem gerist næst er ekkert smá fyndið", "Næsta atriði er ógeðslega fyndið", "Þú átt sko eftir að hlægja eftir smástund" voru sem sagt setningar sem ég heyrði oft og brugðust aldrei.

Næsta mynd sem við horfðum á var Ice Princess. Hún var víst sérvalin handa mér þar sem ég er svona unglingsstelpa eins og stelpan í myndinni. Það er nefnilega eitt sem ég hef ekki sagt ykkur. Ég er í rauninni mikill stærðfræðingur og hef mikinn áhuga eðlisfræði. Einnig á ég eldgamla skauta inni í skáp sem ég tek fram þegar frystir og skauta á tjörninni sem er úti í garði. Ég ákvað sem sagt að sameina þessi áhugamál mín og allan þann tíma sem ég segist vera í Tónó er ég í rauninni niðri í skautahöll að gera eðlisfræðiverkefnið mitt. En ég gleymdi kannski að minnast á það að ég er að taka alla náttúrufræðibrautina eins og hún leggur sig í fjarnámi frá VMA. Mikið er ég fegin að þetta er komið á hreint, það er nefnilega erfiðara en að segja það að lifa tvöföldu lífi. Annars hitti stelpuskottið beint í mark þar sem ég hafði einkar gaman af þessari mynd.

Núna er hún inni í stofu með gamla sængurverið mitt með Mikka Mús, Andrési Önd og fleirum góðum á, að hlusta á ipodinn minn og horfa á Evu og Adam þættina mína. Já og ég er búin að nudda á henni lappirnar. Hún sagði að ég væri góð í því. Töfraráðið er að nota hnúana.

Ég ætla að vona að hún komi oftar að gista hjá okkur. Annars var hún einnig sérlegur aðstoðarmaður minn í kirkjunni í sumar og spjallaði við túristana af mikilli ákefð. Eitt sinn leit ég af henni í smá stund og þá var hún komin í hörkusamræður við breska heldri konu.

Ég ætti samt kannski að hugsa minn gang þegar 9 ára gömul stelpa hneykslast á mér fyrir að vera hrædd við Mr. Tumnus í Narníu.

Þangað til næst...

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

steikt

1:23 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hahaha...nei home alone klikkar aldrei!! :P
En já Abba, mig var farið að gruna eitthvað með tvöfalda lífið sko, þetta var eitthvað gruggugt sko :S

9:34 f.h.  
Blogger Nannnnnna said...

hahahah...
Alltaf gott að segja allann sannleikann Abba :P

11:05 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Áhugavert. Fræðandi. Skýrir hrúgurnar af "Eðlisfræði fyrir lengra komna"-bókunum sem ég fann undir rúminu þínu um daginn ásamt þremur gömlum skautum. Og já, þú ættir að hugsa þinn gang varðandi Tumnus ... ég var ekki hrædd við hann þegar ég var 6 ára!
-Þín skilningsvana frænka,
Talhonjik.

12:17 e.h.  
Blogger Abba blómabarn said...

Já, það er gott að segja sannleikann. Þetta er þó ekki allt saman satt og ég furða mig á því að enginn hafi leiðrétt það en eins og allir vita þá er ekki tjörn í garðinum mínum. Það er samt sundlaug í næsta garði þannig að ég hef bara notað hana.

Þóra þú getur ekki ímyndað þér hvað þetta hefur verið erfitt. Svo þegar þú ert að tala stærðfræðimál og ég þarf að þykjast vera mjög skilningsvana. Ef ég hefði sagt þér það sem ég veit á síðasta ári þá væri málunum sennilega öðruvísi háttað í dag.

Tumnus og ég er eins og þú og blóðprufur. Mér finnst blóðprufur skemmtilegar.

12:43 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home