laugardagur, mars 25, 2006

Sitt lítið af hverju

Athugið.
Þessi færsla er löng og veður úr einu í annað.

Amma er skotin í Snorra. Ég held samt að þetta sé bara stundarhrifning. Perry Como, þú hefur ekkert að óttast. Hún mun ætíð verða þín. Eða ég held það allavega. Annars bið ég þig afsökunar á þeim falsvonum sem ég hef vakið hjá þér.

Sokkabuxurnar mínar eru bóhem. Það var mér allavega tjáð þegar ég fór í sund í gær. Já, ég fór í sund og það var ekki liðinn það langur tími frá því að ég notaði sundfötin að kóngulóarvefur væri farinn að myndast eins og gerðist fyrir ekki svo löngu. Ég mæli ekki með því. Þá er nauðsynlegt að eiga litla bræður sem eru tilbúnir til þess að fórna sér og losa töskuna og sundfötin úr prísundinni. Aftur á móti eru afar ónauðsynlegir á þessum stundum pabbar sem eru of uppteknir við að kafna úr hlátri til þess að hjálpa varnarlausri einkadóttur sinni.

Arnbjörg og Aðalbjörg eru vissulega lík nöfn. Því get ég ekki neitað.

Ég keypti mér gallabuxur áðan. Alltaf jafn skemmtilegt að fara með mömmu í fatabúðir. Það endar yfirleitt (alltaf) með því að ég er inni í mátunarklefanum lýsandi því yfir að ég muni aldrei fara í gallabuxur og bölsótandi svörtum fötum. En ég má mín ekki mikils þegar mamma og afgreiðslukonurnar eru annarsvegar. Ég tapa, máta eitthvað þvert gegn vilja mínum, vil ekki viðurkenna að flíkin sé nú kannski alveg ágæt, kaupi hana svo þegar mamma býðst til þess að borga helminginn í henni, er svo ánægðari en allt þegar heim er komið með þessa undursamlegu flík og geng hana í hengla. Þá er gerð önnur bæjarferð og sama ferlið hefst á ný.

Ég er að hlusta á Joni Mitchell. Það er ágætis skemmtun. Skemmtilegra en að skrifa heimspeki ritgerð og pæla í því hversu tilvísanaglaður SÓ sé.

Vikudagsstrákurinn kom ekkert aftur. Ætli hann hafi gefist upp á okkur? Kannski erum við búin að leika á kerfið og fáum Vikudag þrátt fyrir að borga ekki. Það myndi mér þykja afar sniðugt.

Ég var í Bubbles áðan og átti bara eftir tvo liti og var komin með fullt af stigum. Þá ýti ég óvart á epli R í staðinn fyrir epli T. Epli T þýðir að nýtt Tab opnist, R stendur aftur á móti fyrir Refresh. Ég náði ekki að bjarga leiknum og hann dó. Ég var miður mín í alveg smá stund. Ákvað svo að lífið væri miklu meira heldur en einn Bubbles leikur og fór að blogga.

Afraksturinn af því er hérna fyrir ofan.
Njótið vel.

laugardagur, mars 18, 2006

Fjarstýring lífsins

Væri ekki sniðugt ef maður fengi fjarstýringu af lífinu þegar maður fæddist. Mér myndi þykja það mjög hentugt. Þá gæti ég spólað yfir alla leiðinlegu kaflana og svo aftur til baka ef ég vildi endurupplifa gamla og góða tíma. Og þegar ég er úrvinda ýti ég bara á pásu. Afar hentugt, nema kannski að stopp takkinn gæti verið varasamur en samt ómissandi miðað við gang lífsins.

Því miður á ég ekki svona undratæki og þar af leiðandi sit ég föst í sama hjólfarinu. Það skiptir engu hvað ég geri. Ég spóla bara og spóla en kemst hvorki aftur á bak né áfram.

Ég veit að lífið er ekki dans á rósum og meira að segja frekar ósanngjarnt svona oftast nær en fyrr má nú vera.

Ég á afmæli eftir rúma fjóra mánuði. Einhver góðhjartaður má gefa mér svona fjarstýringu í afmælisgjöf, já eða bara tímavél.

Með fyrirfram þökk
Ég (hver annar)

þriðjudagur, mars 14, 2006

Of mikið bloggleysi?

Í nótt dreymdi mig að ég hefði bloggað. Man ekki um hvað en ég tók það til mín.

mánudagur, mars 06, 2006

Týndur frændi og kattafár

Ég er óskipulögð manneskja og "seinna" er uppáhaldsorðið mitt en jafnframt minn helsti óvinur. Ég er svo kærulaus að það hálfa væri meira en nóg. Ég vildi bara deila þessu með ykkur. Það er nefnilega útbreiddur misskilningur að ég sé andstæðan við þetta.

En að léttara hjali. Það eru orðin nokkur ár síðan ég var spurð eftir foreldrum mínum þegar ég fer til dyra eða ansa í símann. Síðustu tvö kvöld hef ég samt lent í þessu. Þannig er nefnilega mál með vexti að strákurinn sem rukkar fyrir vikudag spyr mig alltaf með sama fýlusvipnum hvort mamma mína eða pabbi séu heima. Sem þau eru ekki búin að vera síðustu kvöld, og alltaf kemur strákurinn aftur grunlaus um það að ég gæti kannski borgað honum ef hann bara spyrði. Ég hef einu sinni séð hann brosa. Það var í gærkvöldi þegar hann mætti og um leið og ég opnaði hljóp nágrannakötturinn inn. Ég náttúrulega skúbbaði kettinum út og stráknum, sem er um 11 ára, leiddist þetta ekki en samt varð þessi sameiginlega lífsreynsla okkar ekki til þess að brjóta ísinn. Svo í kvöld fór Baldur bróðir til dyra og hann spurði enn og aftur eftir ástkærum. Núna er ég búin að taka til 1000 kr handa honum svo ég geti borgað honum á morgun hvort sem honum líkar betur eða verr. Það er ekki hægt að láta greyið strákinn koma hingað kvöld eftir kvöld.

Svo er fyrsta fermingarboðskortið komið í hús og líklega það eina þetta árið. Það er einhver frændi minn. Ég hef aldrei séð hann og vissi ekki einu sinni að hann væri til fyrr en rétt áðan. Ég og pabbi hans erum víst systkinabörn. Það uppgötvaðist nefnilega fyrir ári síðan að til væri einn bróðirinn enn hérna fyrir norðan,sem sagt pabbi, og ég held að eitthvað sé verið að vinna að því að koma á sambandi við þessa nýfundnu ættingja, sem sagt okkur. Það er allt saman gott og blessað svo sem. Á boðskortinu er mynd af honum frá því hann var lítill. Hann var ljóshærður og með krullur, frekar krúttlegur bara. Ég veit samt ekki hvort við heiðrum þau með nærveru okkar.

En ég er farin að sofa.
Góða nótt.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Ég á mér draum

Í nótt dreymdi mig að John Lennon hefði gert eitthvað af sér sem enginn mátti frétta, það fylgdi ekki draumnum hvað það var, og þess vegna ákvað hann að flýja. Hann hljóp af stað en Paul McCartney og apinn hans elta hann og á meðan þeir hlaupa á eftir John syngja þeir bítlalagið Everybody got something to hide except for me and my monkey. Svo þegar þeir ná John segir Paul við hann að þetta sé allt í lagi. Hann þurfi ekki að flýja vegna þess að allir hafi eitthvað að fela hvort sem er. Meira að segja hann sjálfur og apinn.

Ef einhver vill túlka þennan draum er það velkomið en núna er ég búin að vera með þetta blessaða lag á heilanum í allan dag.

Abba hjólkoppur