laugardagur, mars 25, 2006

Sitt lítið af hverju

Athugið.
Þessi færsla er löng og veður úr einu í annað.

Amma er skotin í Snorra. Ég held samt að þetta sé bara stundarhrifning. Perry Como, þú hefur ekkert að óttast. Hún mun ætíð verða þín. Eða ég held það allavega. Annars bið ég þig afsökunar á þeim falsvonum sem ég hef vakið hjá þér.

Sokkabuxurnar mínar eru bóhem. Það var mér allavega tjáð þegar ég fór í sund í gær. Já, ég fór í sund og það var ekki liðinn það langur tími frá því að ég notaði sundfötin að kóngulóarvefur væri farinn að myndast eins og gerðist fyrir ekki svo löngu. Ég mæli ekki með því. Þá er nauðsynlegt að eiga litla bræður sem eru tilbúnir til þess að fórna sér og losa töskuna og sundfötin úr prísundinni. Aftur á móti eru afar ónauðsynlegir á þessum stundum pabbar sem eru of uppteknir við að kafna úr hlátri til þess að hjálpa varnarlausri einkadóttur sinni.

Arnbjörg og Aðalbjörg eru vissulega lík nöfn. Því get ég ekki neitað.

Ég keypti mér gallabuxur áðan. Alltaf jafn skemmtilegt að fara með mömmu í fatabúðir. Það endar yfirleitt (alltaf) með því að ég er inni í mátunarklefanum lýsandi því yfir að ég muni aldrei fara í gallabuxur og bölsótandi svörtum fötum. En ég má mín ekki mikils þegar mamma og afgreiðslukonurnar eru annarsvegar. Ég tapa, máta eitthvað þvert gegn vilja mínum, vil ekki viðurkenna að flíkin sé nú kannski alveg ágæt, kaupi hana svo þegar mamma býðst til þess að borga helminginn í henni, er svo ánægðari en allt þegar heim er komið með þessa undursamlegu flík og geng hana í hengla. Þá er gerð önnur bæjarferð og sama ferlið hefst á ný.

Ég er að hlusta á Joni Mitchell. Það er ágætis skemmtun. Skemmtilegra en að skrifa heimspeki ritgerð og pæla í því hversu tilvísanaglaður SÓ sé.

Vikudagsstrákurinn kom ekkert aftur. Ætli hann hafi gefist upp á okkur? Kannski erum við búin að leika á kerfið og fáum Vikudag þrátt fyrir að borga ekki. Það myndi mér þykja afar sniðugt.

Ég var í Bubbles áðan og átti bara eftir tvo liti og var komin með fullt af stigum. Þá ýti ég óvart á epli R í staðinn fyrir epli T. Epli T þýðir að nýtt Tab opnist, R stendur aftur á móti fyrir Refresh. Ég náði ekki að bjarga leiknum og hann dó. Ég var miður mín í alveg smá stund. Ákvað svo að lífið væri miklu meira heldur en einn Bubbles leikur og fór að blogga.

Afraksturinn af því er hérna fyrir ofan.
Njótið vel.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Lífið er alls ekkert meira en BUBBLES Arnbjörg Jónsdóttir...hehe nei djók :P

En já, ég ætla að hrósa þér fyrir gallabuxnakaupin, ekkert illa meint sko, bara flottar á þér líka :P hehe

1:53 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

rosalegheit!

10:18 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home