mánudagur, maí 29, 2006

Passið ykkur!

Ég er ekki með neinn botnlanga, hef fengið hlaupabólu og er ekki hrædd við fuglaflensuna.

Heimspekin

Þetta próf var blóðsúthelling.

Ég finn til í puttanum.

sunnudagur, maí 28, 2006

Are you going to Scarborough Fair?

Ég ætla að vera mest pirrandi manneskjan í heimspeki prófinu á morgun. Ég ætla að vera þessi sem að sýgur stanslaust upp í með tilheyrandi horhljóði. Ofan á þetta ætla ég að hósta reglulega þannig að allir fái alveg örugglega klíju. Mér datt í hug að ganga alla leið og láta braka í fingrunum líka. Taka einn fyrir í einu í rólegheitunum svo það komi sem mestur hávaði. En þar sem ég þoli ekki svon brakhljóð og svo fer það líka illa með puttana þá er ég hætt við það. Þetta kom nefnilega einu sinni fyrir mig í dönsku prófi. Strákurinn á borðinu við hliðina hætti allt í einu að einbeita sér að prófinu og hóf að láta braka í puttunum á sér. Tók einn fyrir í einu og vandaði sig mikið við þetta. Ég hætti að geta einbeitt mér líka þar sem ég kipptist við hvern smell.

Nói albinói var sýnd á BBC á föstudagskvöldið. Ég sá þetta reyndar ekki sjálf en ég treysti heimildarmönnunum mínum. Ástkærir hafa ekki verið mikið fyrir það að ljúga að börnunum sínum svo ég viti til allavega.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Samfylkinguna á föstudaginn. Ég hélt að þetta væru jafnaðarmenn en annað sýndist mér nú á kandífloss röðinni. Þeir voru nefnilega að gefa kandífloss og þar beið ég í rúman hálftíma í miklum troðningi. Þar var jafnréttið sko ekki í fyrirrúmi get ég sagt ykkur.

Hér kemur smá tilhlökkunarlisti.

Ég hlakka til þegar...
prófin verða búin.
við förum til Danmerkur.
sólin fer að skýna.
ég fæ útborgað.

Hvað með þig?

fimmtudagur, maí 25, 2006

Hvað skal kjósa?

Senn líður að kosningum og ég stend frammi fyrir stórri ákvörðun. Ætti ég að kjósa framsóknarflokkin sem var svona góður að gefa mér harðfisk í gær. Eða kannski af því að allir eru svo ánægðir á öllum bæklingum sem ég fæ frá þeim eða vegna þess að Simmi idolkynnir talar inná auglýsingarnar hjá þeim. Hvað þá með vinstri græna, þeir voru nú svo elskulegir að gefa mér þessar ágætis myntur í gær líka. Svo fékk ég svona líka skemmtilegt póstkort frá þeim. En hvað með Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, L-listann sem er nú einu sinni listi fólksins eða x-o sem ætlar að færa okkur Akureyringum tónlistarhátíð í líkingu við Hróarskeldu. Já, þetta er erfið ákvörðun. Annars er ég nú ekki svona auðkeypt. Ég held ég viti hvað ég vilji.

Annars er ég aftur farin að ganga á fötunum mínum. Mér nægir ekki að ganga í þeim og sennilega á ég eftir að ganga fram af þeim einn daginn.

Ég er strax farin að sakna þess að vera ekki í prófi klukkan eitt. Mér finnst ennþá eins og ég hafi 2 - 3 tíma á morgun til þess að leggja allt það mikilvægasta á minnið. Greyið ég í fyrramálið. Svo gæti heilsan verið betri. Ég er með hálsbólga og klæjar óendanlega í hálsinn.

Svo biðu mín skemmtileg skilaboð á bílnum mínum í dag. Undir rúðuþurkunni var hvítt A4 blað og á það var ritað, með rauðum penna, auglýsing fyrir BMW klúbb og einhver fundur sem allir eigendur voru hvattir til þess að mæta á, á bílunum að sjálfsögðu, í dag. Ég fór reyndar ekki. Bæði vegna prófa og kannski smá vegna skorts á bílaáhuga. Mér finnst ég samt hafa staðið mig vel sem bílaeigandi. Ég gaf honum nafn, hann er hreinn og það er nýbúið að skipta um drifskaftsupphengi, svo skemmtilegt orð, þannig að Lennon getur unað vel við sitt.

Vúps, síðasti þátturinn af Lost var að detta inn. Ég ætla að horfa á hann og fara svo að sofa. Ég er búin að koma sálfræðiglósunum vel fyrir undan koddanum.

Góða nótt.

mánudagur, maí 22, 2006

Veðrið, Eurovision og Leiðarljós

Þau flugu hjá í snatri,
já, fuglarnir og sólin.
En nú er þetta breytt,
það bara gerist ekki neitt
og tíminn rótast ekkert
og aldrei kemur SUMRIÐ.

Þetta er það eina sem ég vil segja um veðrið.

Og þar sem ég er nú farin að tjá mig um veðrið á annað borð þá get ég allt eins farið með þetta alla leið og skrifað eitthvað um eurovision.

Þannig að sem sagt, já.
Eurovision er eitthvað sem ég hef alltaf haft mjög gaman að. Því miður fer áhugi minn dvínandi. Sérstaklega með breytta skipulaginu og svo spilar það víst eitthvað inní hvað lögin eru orðin afspyrnu leiðinleg. Flest er þetta svo drep leiðinlegt að það er varla áheyrilegt. Hvað varð eiginlega um öll skemmtilegu popp- og dægurlögin. Eins og árið 2000, það var virkilega góður árgangur. Ég tek þetta mjög nærri mér. Að einhverjir Evrópubúar séu næstum því búnir að eyðileggja þessa skemmtun fyrir mér. En ég var samt sátt við úrslitin. Hélt samt með Danmörku.

Þá skal ég skrifa um eitthvað sem mér þykir oftast mjög skemmtilegt en getur samt sem áður stundum gengið fram af mér og verið svo leiðinlegt að ég slekk á sjónvarpinu og fer að gera eitthvað annað. Hvað getur þetta annað verið en Leiðarljós og þessa stundina er þar margt nýtt að gerast sem ekki hefur sést áður svo ég muni eftir.

Þannig vill nefnilega til að hún Reva Shane-Lewis "dó" fyrir nokkrum árum. Sem sagt datt í á og fannst aldrei. Svo birstist hún fyrir einhverjum mánuðum sem vofa og fer að ásækja Josh Lewis eiginmann sinn og ástkonu hans, Annie. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar hún birtist bara upp úr þurru. Svo var hún eitthvað að dandalast þarna með tilheyrandi draugagangi og Revu stælum, sem flestir sem horfa á Leiðarljós ættu nú að þekkja mjög vel. Svo hverfur hún einn daginn fyrir fullt og allt nema það að þá vaknar hún upp á einhverju sveitabýli þar sem hún er búin að vera í dái í öll þessi ár hjá Amish fólki. Gaman er að fygljast með henni fá minnið og ég fagna mjög komu hennar aftur heim.

Svo er einn klæðskiptingur í gangi núna. Eitthvað sem ég man ekki heldur eftir að hafi gerst áður. Brent Lawrence nauðgari Lucyar er mættur aftur sem Marian nýi starfskrafturinn hjá Spaulding. Þetta var nú ennþá meira sjokkerandi þar sem að hann á nú að vera dauður. Ég horfði á hann deyja og allt. Systir hans syrgði hann og líkkistan var á sínum stað. En ekkert sjálfgefið í Leiðarljósi. Ætli þetta sé ekki eins og í heimspekinni. Við getum ekki verið viss um neitt nema það sem við skynjum og drögum af því ályktanir. En ég ætla nú ekki að fara að tjá mig neitt um það hér. Brent er samt sem áður að koma sér í mjúkinn hjá Lucy og Alan Michael svo hann geti gert út af við þau í eitt skipti fyrir öll.

Eins og sjá má er Leiðarljós mjög spennandi og nýungagjarnt í augnablikinu. Annars er bara eitthvað gamalt í gangi. Holly er reyndar ófrísk og það komin vel yfir fertugt. Fletcher fór í ófrjósemis aðgerð og er því ekki alveg að trúa því að hann eigi barnið. Svo sagði Roger að hann og Holly hefðu sofið saman, sem er reyndar lygi. Bara þetta gamla góða.

Ég verð að viðurkenna það að ég hafði gaman að því að skrifa þetta. Það er víst ekki talið flott að horfa á Leiðarljós en mér er sama. Svo er þeta svo hentugt vegna þess að þegar maður fær nóg af þessari vitleysu sleppir maður því að horfa í viku en þú missir samt ekki af neinu. Breytingarnar eru svo hægar.

Ég man samt eftir því þegar ég var í bæjarvinnuna sumarið fyrir MA. Þá snerust umræðurnar um Glæstar vonir. Sem er sennilega mesta sápa sem ég hef séð. Ætli það spili ekki inn í hvað hún sé illa leikin. Þá voru sumir alveg húkt á það. Fannst svo notalegt að vakna snemma á morgnana og horfa á þetta eða þá að liggja yfir þessu á laugardögum. Svo var þetta líka svona skemmtilegt þótt að allir aðrið sögðu að þetta væri bara bull og vitleysa. Svo þegar ég játa að ég horfi nú á Leiðarljós urðu þær svona hneykslaðar á því að ég skildi horfa á það bull.

Fyrir þá sem ekki nenntu að lesa allt fyrir ofan kemur hér örstutt samantekt:
Veðrið er leiðinlegt
Eurovision hefur átt betri daga
Leiðarljós er ómissandi
Fólk er skondið

Ég þakka þeim sem hlýddu, góðar stundir.

fimmtudagur, maí 18, 2006

H9 - 11:25 - Menntaskólinn á Akureyri

Leikendur:
Heimspeki kennari Menntaskólans á Akureyri - Sigurður Ólafsson
Óbreyttur nemandi Menntaskólans á Akureyri - Ég

Ég: Heyrðu SÓ, má ég aðeins nota sjónvarpið?
Hann: Ertu að spurja mig?
Ég: Já, þetta er þín stofa og svona. Bara að biðja um leyfi.
Hann: (glottandi) Hvað heiti ég?
Ég: Ha? Guð fyrirgefðu, Sigurður ég veit alveg að þú heitir Sigurður. Ég biðst afsökunar, þetta var ónærgætið af mér, fyrirgefðu.
Hann: (Ennþá meira glottandi) Þetta mun vera Freudíst en gjörðu svo vel þú mátt nota sjónvarpið.

Þetta var frekar neyðarlegt sérstaklega þar sem ég fattaði ekki neitt. Ég skammast mín ennþá. En hann brosti þannig að ég held þetta hafi ekki verið svo alvarlegt. Mér finnst samt að það eigi að leggja niður gælunöfn kennara. Þetta getur verið stórhættulegt. Skil samt ekki alveg tenginguna við Freud.

Farin að horfa á Eurovision.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Flyta ser

Fyrirlestur í íslensku
þórarinn eldjárn
gaman já
er að drífa mig
verð að vera á undan

sunnudagur, maí 14, 2006

Allt þetta óborganlega

Þá er það maí. Mánuðurinn sem Bítlarnir prýða fallega dagatalið mitt sem ég keypti í Tiger. Það hlýtur að boða gott. Einnig mánuðurinn sem próf menntskælinga byrja og sumarfríið nálgast óðfluga. Tíminn flýgur hjá án þess að ég fæ rönd við reist. En undan því ætla ég nú ekki að kvarta.

Sólin skín sem aldrei fyrr og þýðir kalann í brjóstum okkar. Löngu kominn tími til. Það er óborganlegt.

Ég var samt ekki mikið úti í dag heldur horfði ég á nokkra That '70s show þætti. Þeir voru úr fimmtu seríu þar sem Kitty berst við breytingarskeiðið. Óborganlegt.

Ég hef líka fylgst grannt með ævintýrum Silvíu Nætur í Aþenu. Það er einnig óborganlegt.

Svo finnst mér Eurovision þátturinn með norrænu spekingunum einstaklega skemmtilegur. Þótt að lögin séu ekkert til að hrópa húrra yfir þá er alltaf svo gaman hjá þeim norrænu vinum að maður getur ekki annað en glaðst með. Norski bangsinn, vondi íslendingurinn með gullmakkann, góðhjartaði svíinn með mikla hárið, hressi daninn sem verður alltaf að vera pínu öðruvísi og svo fróði Finninn sem kemur mér sífellt á óvart með eindæmum lélegum tónlistarsmekk. Enn og aftur óborganlegt.

Það er tvennt sem ég get mælt með.
Það er að hlusta á plötuna Blue með Joni Mitchell. Allt verður svo miklu fallegra.

Svo að hlusta á Óskalögin 2. 40 vinsæl lög frá 6. og 7. áratugnum. Verður þess valdandi að mig langar að setja rúllur í hárið og lesa húsfreyjuna.
Þótt ótrúlegt megi virðast þá er þetta líka óborganlegt.

Hlustið á Lítill fugl og Heyr mína bæn með Elly Vilhjálms en munið að Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Ég kveð að sinni,
Arnbjörg með óborganlegt blogg.