sunnudagur, maí 14, 2006

Allt þetta óborganlega

Þá er það maí. Mánuðurinn sem Bítlarnir prýða fallega dagatalið mitt sem ég keypti í Tiger. Það hlýtur að boða gott. Einnig mánuðurinn sem próf menntskælinga byrja og sumarfríið nálgast óðfluga. Tíminn flýgur hjá án þess að ég fæ rönd við reist. En undan því ætla ég nú ekki að kvarta.

Sólin skín sem aldrei fyrr og þýðir kalann í brjóstum okkar. Löngu kominn tími til. Það er óborganlegt.

Ég var samt ekki mikið úti í dag heldur horfði ég á nokkra That '70s show þætti. Þeir voru úr fimmtu seríu þar sem Kitty berst við breytingarskeiðið. Óborganlegt.

Ég hef líka fylgst grannt með ævintýrum Silvíu Nætur í Aþenu. Það er einnig óborganlegt.

Svo finnst mér Eurovision þátturinn með norrænu spekingunum einstaklega skemmtilegur. Þótt að lögin séu ekkert til að hrópa húrra yfir þá er alltaf svo gaman hjá þeim norrænu vinum að maður getur ekki annað en glaðst með. Norski bangsinn, vondi íslendingurinn með gullmakkann, góðhjartaði svíinn með mikla hárið, hressi daninn sem verður alltaf að vera pínu öðruvísi og svo fróði Finninn sem kemur mér sífellt á óvart með eindæmum lélegum tónlistarsmekk. Enn og aftur óborganlegt.

Það er tvennt sem ég get mælt með.
Það er að hlusta á plötuna Blue með Joni Mitchell. Allt verður svo miklu fallegra.

Svo að hlusta á Óskalögin 2. 40 vinsæl lög frá 6. og 7. áratugnum. Verður þess valdandi að mig langar að setja rúllur í hárið og lesa húsfreyjuna.
Þótt ótrúlegt megi virðast þá er þetta líka óborganlegt.

Hlustið á Lítill fugl og Heyr mína bæn með Elly Vilhjálms en munið að Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Ég kveð að sinni,
Arnbjörg með óborganlegt blogg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home