sunnudagur, janúar 22, 2006

"Þú ert á lífi?"

Já, ég er á lífi. Ég get ennþá séð um fjögurra fjörugra barna heimili. Ég neita því samt ekki að það er erfitt að eiga 4 börn.

Pabbi fékk snemmbúna afmælisgjöf í gær. Trekkta veggklukku sem er afar falleg og minnir helst á húsgagn þar sem hún hangir á stofuveggnum. Ég á þó einhvern daginn eftir að fá hjartaáfall þar sem hún slær á hálftíma fresti og ég sýp hveljur og jesúa mig í hvert skipti. Ég tek ennþá viðbragð þegar síminn hringir þannig að ég efast um að ég eigi eftir að venjast klukkunni í bráð. Ég er samt búin að komast að því hvaðan ég hef þessa taugaveiklun en það er frá henni ömmu minni. Hún tekur líka viðbragð þegar síminn hringir.

Það er eitt próf eftir og er það sálfræði. Ég held að það hefði verið vel hægt að sleppa því að búa til þessa sálfræðibók. Á köflum er hún nefnilega með öllu óskiljanleg eða kannski er ég bara svona fattlaus. Ekki get ég lært í stofunni þar sem umrædd klukka truflar mína viðkvæmu einbeitingu. Svo er pabbi með hljómsveitaræfingu úti í skúr þannig að sveitaballalögin hljóma um húsið. Sem er svo sem ekkert slæmt í sjálfu sér. Ég stend mig þó alltaf að því að vera að syngja með. Þannig að ég sit hérna í myrkrinu í herberginu mínu og blogga í staðinn fyrir að læra.

En að einhverju skemmtilegu. Ég er að fara til Danmerkur í byrjun júni. Systir pabba verður nefnilega sextug og er því stórfjölskyldan að fara. Fyrst áttum við Baldur ekki að fá að fara með en þar sem ég er snillingur í að grenja mig inní Danmerkur ferðir urðum við fljótt hluti af planinu. Næst voru prófin nærri því búin að eyðileggja ferðina en henni var bara seinkað um tvo daga. Þannig að það er stanslaus gleði á þessum bæ.

Ég hef þetta ekki lengra. Pavlov og hundarnir hans bíða ólmir eftir mér. Ég var búin að lofa að gefa þeim eitthvað í gogginn. Með því skilyrði þó að hann myndi þrífa upp eftir þá. Þeir eru nefnilega bölvaðir sóðar.

Endum þetta á laginu sem ómar um húsið þessa stundina.

Yfir esjuna til tunglins trúðu mér ... reyndu aftur ég bæði sé og veit og skil


P.S. Ójá, þeir eru að spila bítlalag núna og mér heyrist ekki betur en að hann karlfaðir minn sé að syngja. Close your eyes and I'll kiss you, tomorrow I'll miss you...

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hehehe...En núna er þetta búið :D helvítans prófin að baki :) úff ég er svooo fegin

En já...þarf að fara að pakka, er að fara í sveitina :D

4:12 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home