mánudagur, febrúar 27, 2006

Bollur og herbergi

Það er bolludagur í dag sem þýðir að landinn belgir sig út af rjómabollum. Nema ég, mér þykja rjómabollur vondar. Þá er það komið á hreint og ég þarf aldrei að borða svoleiðis aftur. Ég meina rjómi og brauð, það fyrsta sem mér dettur í hug er rúgbrauð með rjóma á. Ég reyndi samt að borða eina áðan en gat ekki fyrir mitt litla líf klárað hana. Einu sinni fannst mér samt rjómi mjög góður og borðaði hann gjarnan eintóman.

Núna vita allir hvað ég er matvönd. Ég varð bara að koma þessu frá mér.

Klukkan 17:04 horfði ég svo á Leiðarljós eftir tveggja vikna hlé. Það urðu miklir fagnaðarfundir en ég spyr mig samt alltaf að því hvers vegna í ósköpunum ég horfi á þetta.

Svo er eintóm gleði eftir. OC klukkan 8 og Americas Next Top Model klukkan 9.

Annars góður leikur í gær. Ég missti reyndar af honum en horfði á um 45 mínútna samantekt í gærkvöldi. Sem þýðir eintóm skemmtilegheit allan tímann.

Ég og herbergið mitt eigum í stanslausri baráttu. Það heldur því fram að það þarfnist tiltektar. Ég neita og segi því að þakka fyrir að ég nenni að vera hérna yfir höfuð. Ég á ekki stuðning fjölskyldunnar minnar vísan í þessum átökum. Mamma svíkur lit og heldur með herberginu. Það er samt ekki fyrr en pabbi er farin að tala máli herbergisins að ég ákveð að hugsa minn gang aftur.

Ég hallast að tilgangslausum bloggum. Fer það samt ekki í taugarnar á neinum nema mér að það skuli ekki koma stór stafur í nafninu manns í kommentakerfinu?

Abba hjólkoppur

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Sagan segir...

Sagan segir að bloggeigandinn hafi mætt í sunnudagaskólann í morgun eins og vera ber og hitt þar fyrir konu sem taldi hana útlærðan kennara. Þegar konan komst að hinu sanna taldi hún upprennandi guðfræðing og frelsara þjóðkirkjunnar á ferðinni. Þetta getur vel verið satt enda rúmlega 2000 ár síðan síðasti frelsari kom fram og löngu komin tími á annan.

Annars hef ég einnig heyrt því fleygt að tónleikar séu haldnir í dag á vegum tónlistarskólans sem stúlkan stundar af miklum krafti. Eitthvað er ég nú ekki alveg viss um tilefni þessara tónleika, þar sem sagan hefur borist um langan veg og eitthvað hefur skolast til, en eitthvað tengist það afmæli. Ég hef það samt eftir mjög áreiðanlegum heimildum að inngönguskilyrði séu svartur alklæðnaður, vel sminkað andlit og varalitur (helst rauður). Það kom þó upp ósamræmi í sögunni þar sem tónleikarnir eru á vegum tónlistarskólans en fara fram í Glerárkirkju og kaffisala er svo í Síðuskóla. Þetta bíður upp á persónulega túlkun sem er mjög skemmtilegur liður í sögusögnum. Ég vil túlka þetta þannig að sameiginlegt átak eigi sér stað hjá þessum stofnunum. Það eigi að kristna fólk, kenna því að meta klassíska tónlist og kenna því undirstöðu atriðin í lestri og skrift á tveimur til þremur tímum.

Sagan segir ennfremur að klassískir söngvarar séu ekki svo góðir í singstar. Bloggeigandinn mun víst hafa reynt fyrir sér í 80's leiknum en ekki kunnað nema 1/4 laganna sem í boði voru og þá einungis viðlögin. Enda skilst mér að hún einbeiti sér miklu frekar að allt öðru tímabili tónlistarsögunnar.

Eitthvað heyrði ég um lestur Sjálfstæðs fólks en hvort stúlkan sé byrjuð á þeirri ágætu bók fylgdi ekki sögunni.

Fleira var það ekki í dag.
Ég sel það ekki dýrara en ég stal því en láttu það berast.

Saga Björg,
prófessor í sögusögnum.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Grátiblogg

Ég grét yfir Benjamín dúfu
Ég grét yfir Dancer in the dark
Ég grét yfir Kaldaljósi
Ég grét yfir Englum alheimsins
Ég grét yfir Fimmburunum
Ég grét yfir myndinni þar sem að amman dó
Ég grét yfir myndinni þar sem mamman ákveður að deyja í flóðinu
Ég grét yfir lost þættinum þar sem að Locke lemur Charlie
Ég grét yfir Green mile
Ég grét yfir myndinni þar sem karlinn var tekinn af lífi
Ég grét yfir þættinum þar sem að strákurinn dó úr hvítblæði
Ég grét yfir Litlu prinsessunni
Ég grét yfir Titanic
Ég grét yfir Oprah þættinum þar sem hún sameinaði föður og dóttur
Ég grét yfir My little girl

Ég grét samt ekki yfir Notebook. Þið megið kalla mig tilfinningalausa.


Það skal tekið fram að þetta er ekki tæmandi listi.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Lad det swinge og lad det rock'n'roll

Ég horfði á Kompás áðan á stöð 2 og það fór um mig. Þetta er ógeðslegt.

Annars er ég mjög miður mín vegna meiðsla sem Alan Smith hlaut um helgina. Hann er uppáhalds leikmaðurinn minn og það var skelfilegt að sjá þetta. Svo töpuðum við árans leiknum líka.

Myndin Tootsei var að byrja á skjá 1. Ég man eftir því þegar ég sá þá mynd í fyrsta skipti.
Aðdragandinn var eitthvað á þessa leið:
- Grýtubakki
- Mikil rigning
- Kassabíll (járngrind) úti á túni
- Meiðsli eftir bannsettan kassabíl (járngrind)
- Vont skap
- Inn aftur holdvot
- Ís sem ísbíllinn hafði komið með daginn áður
- Þessi mynd
- Lund mín kættist á ný

Núna ætla ég að horfa á þessa mynd og athuga hvort hún sé ennþá jafnskemmtileg og hún er í minningunni. Eða hvort vonda skapið, rigningin og ísinn hafi gert myndina svona skemmtilega.

Talandi um sárið sem ég hlaut í viðureigninni við kassabílinn (járngrindina) þá var ég lengi vel með ör á fætinum, þá er ég að tala um nokkur ár, en ég grandskoðaði löppina á mér rétt í þessu og fann engin ummerki þess að ég hefði lent í slag við kassabíl (járngrind). Vei, þvílík gleði.

Þangað til næst...

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Fyrsti bloggleikurinn

Elín Ósk klukkaði mig. Njótið vel.

4 störf sem ég hef unnið um ævina:
1. Kaupakona í sveit
2. Kirkjuvörður
3. Unglingavinnan
4. Við barnastarf Akureyrarkirkju

4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
1. LOTR 1, 2 og 3
2. Almost famous
3. Dirty Dancing
4. Með allt á hreinu

4 staðir sem ég hef búið á:
1. Þingvallastræti 16
2. Grýtubakki 1
3. Höfðahlíð 1
4. Byggðavegi 99

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
1. Lost
2. That '70s show
3. Gilmore Girls
4. Leiðarljós

4 síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
1. muninn.is
2. kirkjan.is
3. imdb.com
4. brainstorm.lv

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
1. Danmörk
2. Hljóðaklettar
3. Reykjavík
4. Ásbyrgi

4 matarkyns sem ég held uppá :
1. Ís
2. Mjólkugrautur og súrt slátur
3. Lasange og hvítlauksbrauð
4. Marens

4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
1. Mér líður bara ágætlega heima hjá mér.
2. Ég væri samt alveg til í að fara 10 ár aftur í tímann og eyða einu sumri enn áhyggjulaus á Grýtubakka.
3. Svo vildi ég líka að ég væri búin að lesa alla þá kafla sem ég á að lesa fyrir morgundaginn í To kill a mockingbird.
4. Mig langar líka í ís.

Ég klukka Þóru, Valborgu, Helgu og Kötu

En gaman og fræðandi. Gott redd þarna í síðasta liðnum.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Nammi nýting mjög góð er, með kúlusúkkið læðist, brauð og egg á pönnu fer, og rauðan brauði klæðist

Ég fór með Helgu í bíó á mánudagskvöldið á Walk the line, mjög góð mynd.
Ég fór með pabba í bíó í gærkvöldi á Munich, mjög góð mynd.

Það var einnig mjög góð nýting á namminu þar sem ég gat notað sama kúlusúkk pokann á báðar myndirnar. Ég reyndi bara að láta ekki á neinu bera þegar inní bíóið var komið svo ég yrði ekki tekin með ólöglegt efni eða nammi. Ég hef samt aldrei lennt í því að fara í vitlausan sal í bíó. Okkur pabba var farið að gruna ýmislegt þegar að myndin byrjaði í fangelsi með svörtum fangavörðum. Ég sannfærðist svo algerlega þegar ég sá nafninu hennar Jennifer Aniston bregða fyrir þannig að við urðum að flýja A salinn og leita skjóls í sal B. Greinilega bara einfeldni í mér að halda að Munich yrði sýnd í A.

Ef að þú tekur eina bónusbrauðsneið og gerir gat í miðjuna og setur hana á pönnu og brýtur egg og lætur rauðuna passa í gatið og svo seturðu tvær skinskusneiðar og ost yfir og lætur herlegheitin steikjast í nokkrar mínútur þá ertu komin með hreint ágætis kvölverð. Ég hef samt aldrei gert svona bara mamma. Kannski ég gæti samt klórað mig út úr því þar sem ég virðist víst kunna aðferðina. Mér hefði samt aldrei dottið í hug að gera gat á brauðið.

Ég gerði samt svolítið slæmt í dag en ég faldi mig á bak við vegginn þannig að það var allt í lagi.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Prestar og páfagaukar

Mikið áhættuatriði var haldið í morgun. Ég og Valborg vorum prestlausar með sunnudagaskólann. Alveg aleinar og það gekk líka svona prýðilega. Hver þarf presta?

Ég átti tvö nammi eftir í nammi pokanum mínum áður en ég fór að borða hádegismat. Svo þegar ég fer að huga að namminu mínu þá er hann Baldur ekki uppáhalds bróðir, sem heldur því fram að hann sé veikur þótt ótrúlegt megi virðast, búin að klára nammið mitt. Án þess að spyrja kóng né prest og hann vissi að ég átti þetta nammi. Ég er alveg gríðarlega bitur og reið yfir þessu. Miglangínammimitt. Ég er að pæla í að hafa samband við Florence Nightingale og láta hana siða hann til.

Af hverju eru síðustu tveir lost þættir búnir að taka svona á tilfinningalega. Sérstaklega þar síðasti þáttur. Vondi Locke, vondivondi Locke. Ég viðurkenni það fúslega að ég táraðist yfir honum. Þvílík mannvonska.

Kobbi smeykur, Kobbi bleikur, Kobbi voða veikur.
Heilsubælið stendur alltaf fyrir sínu.

May we borrow your phone please?
Haha, svo ótrúlega fyndin auglýsing.

Endum þetta samt á afa.
Veriði góð við allt og alla þá gengur allt svo miklu betur.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Hugur átta ára stúlku

Í gær fann fyrir tilfinningu sem ég var búin að gleyma. Ég mundi eftir því að þegar ég var átta til níu ára gömul þá helltist stundum yfir mig þessi gríðarlega hræðsla við það að ég myndi á einhverjum tímapunkti deyja. Ég myndi lifa og svo deyja. Þegar ég hugsaði um þetta varð ég svo gríðarlega áhyggjufull og hrædd. Ég man að ég reyndi alltaf að gleyma þessum vangaveltum og þessari staðreynd sem var þó sönn og hugsa um eitthvað fallegt. Mér var nefnilega einu sinni sagt þegar ég var myrkfælin og gat ekki sofnað að ég ætti að hugsa um eitthvað fallegt. Ég hef reynt að lifa eftir þessu og reyndi, og reyni enn, að hugsa fallegar hugsanir þegar mér leið illa. Oftast hugsaði ég um himnaríki sem huggaði mig ávallt að lokum. Ég fann einnig fyrir þessari sömu tilfinningu þegar ég hugsaði um það að ég ætti eftir að verða fullorðin. Ég ætti eftir að ganga í gegnum svo margt sem mér fannst ég ekki eiga eftir að ráða við. Ég varð þó ekki jafnhrædd og þegar ég hugsaði um dauðann en tilfinningin var samt lík. Það var svo undarlegt að hugsa til þess að þótt ég væri bara átta ára ætti ég eftir að verða fullorðin eins og mamma og gömul eins og amma. Þetta kann ekki að virðast neitt hræðilegt en þetta var samt neikvæð tilfinning. Við þessar aðstæður hjálpaði himnaríkið mitt mikið. Einnig ímyndaði ég mér stundum stórar og litskrúðugar blómabreiður, þær hugguðu mig líka.

Ég var búin að steingleyma þessum áhyggjum mínum og tilfinningum og get ekki sagt að ég hafi saknað þeirra. Þetta rifjaðist allt upp þegar ég byrjaði á Veröld Soffíu. Ég hef samt ekki þessar sömu áhyggjur í eins miklu magni núna. Nýjar hafa komið í staðinn. Svo er það stóra spurningin. Hvað má læra af þessu? Ætli það sé ekki að einbeita sér að nútíðinni, lifa í núinu. Hljómar ágætlega allavega.

Það er greinilega stórhættulegt að vera í heimspeki. Guð má vita hvað fleira á eftir að koma upp á yfirborðið við lestur þessarar bókar.

laugardagur, febrúar 04, 2006

Sveita- og bíóferð

Í gær fór ég út fyrir endimörk malbiksins og nam staðar á mörkum hins byggilega nánar tiltekið Bárðardalur - Víðiker. Ég hafði lofað að passa öll þau börn sem yrðu þar saman komin á meðan fullorðna fólkið færi á Þorrablót. Sá yngsti var 8 mánaða og ekki beint sáttur við að sitja einungis uppi með mig þegar leið á kvöldið. Loks þegar komin var á ró stakk Baldur bróðir af og fór niður að sofa. Ég sat aftur á móti inni í eldhúsi stjörf af þreytu að horfa á Mæðgurnar þangað til fólkið kom aftur. Ég held ég hafi sjaldan verið jafn taugaveikluð þar sem ég hrökk upp við hvert einasta svefnhljóð og vonaði að hávaðabelgurinn vaknaði ekki aftur. Einnig þorði ég varla að hreyfa mig þar sem það brakar alveg ótrúlega í gólfinu og ég var hrædd við að vekja umræddan litla mann. Gaman er að segja frá því að ég svaf inni í eldhúsi á grjóthörðum bedda. Við komum svo heim í morgun. Mér líður samt eins og ég hafi verið viku í burtu en ekki einn dag.

Minningar Geisju er virkilega góð bók og myndin er ekki af verri endanum heldur. Hún fylgir bókinni vel eftir og er róleg og afslöppuð. Af þeim völdum er hún kannski ekki við allra hæfi en þrátt fyrir það mæli ég með myndinni og ég sé ekki eftir þessum tveimur tímum og 800 kr sem fóru í þessa skemmtun.

Lilla frænka ætlar ekki að taka upp eurovisionkeppnina þetta árið ef Silvía Nótt vinnur. Ég vona samt innilega að hún taki þetta.

Manutd er að spila við Fulham. Staðan er 3 - 2 fyrir mér. Ég fyrirgef þó Fulham fyrir seinna markið þar sem að Heiðar Helguson skoraði.

Þangað til næst...

P.S. Ég tek orð mín aftur, ég fyrirgef honum ekki rassgat.