laugardagur, febrúar 04, 2006

Sveita- og bíóferð

Í gær fór ég út fyrir endimörk malbiksins og nam staðar á mörkum hins byggilega nánar tiltekið Bárðardalur - Víðiker. Ég hafði lofað að passa öll þau börn sem yrðu þar saman komin á meðan fullorðna fólkið færi á Þorrablót. Sá yngsti var 8 mánaða og ekki beint sáttur við að sitja einungis uppi með mig þegar leið á kvöldið. Loks þegar komin var á ró stakk Baldur bróðir af og fór niður að sofa. Ég sat aftur á móti inni í eldhúsi stjörf af þreytu að horfa á Mæðgurnar þangað til fólkið kom aftur. Ég held ég hafi sjaldan verið jafn taugaveikluð þar sem ég hrökk upp við hvert einasta svefnhljóð og vonaði að hávaðabelgurinn vaknaði ekki aftur. Einnig þorði ég varla að hreyfa mig þar sem það brakar alveg ótrúlega í gólfinu og ég var hrædd við að vekja umræddan litla mann. Gaman er að segja frá því að ég svaf inni í eldhúsi á grjóthörðum bedda. Við komum svo heim í morgun. Mér líður samt eins og ég hafi verið viku í burtu en ekki einn dag.

Minningar Geisju er virkilega góð bók og myndin er ekki af verri endanum heldur. Hún fylgir bókinni vel eftir og er róleg og afslöppuð. Af þeim völdum er hún kannski ekki við allra hæfi en þrátt fyrir það mæli ég með myndinni og ég sé ekki eftir þessum tveimur tímum og 800 kr sem fóru í þessa skemmtun.

Lilla frænka ætlar ekki að taka upp eurovisionkeppnina þetta árið ef Silvía Nótt vinnur. Ég vona samt innilega að hún taki þetta.

Manutd er að spila við Fulham. Staðan er 3 - 2 fyrir mér. Ég fyrirgef þó Fulham fyrir seinna markið þar sem að Heiðar Helguson skoraði.

Þangað til næst...

P.S. Ég tek orð mín aftur, ég fyrirgef honum ekki rassgat.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert bara alltaf að passa :) ekkert nema gott sko samt :P

1:07 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home