mánudagur, janúar 30, 2006

Á morgun segir sá lati

Klukkan er rúmlega hálf tólf og ég er ekki ennþá búin að taka til í herberginu mínu. Rétt áðan skipti ég þó á rúminu, setti geisladiskana upp í hillu og tók ÖLL fötin og setti inn í skáp, ofan á stól eða í óhreinatauið eftir ástandi. Það er hægara sagt en gert.

Ég geri hitt á morgun.

Dag í senn, eitt andartak í einu...

Ég ætla að taka til í herberginu mínu í dag.

laugardagur, janúar 28, 2006

Eitthvað stórkostlegt, eitthvað gott.

Listinn gengur ágætlega, sérstaklega viðbæturnar. Ég held ég hafi klárað þær nánast allar í gær. Gærdagurinn var meira að segja mjög skemmtilegur. Það er langt síðan að ég hef gert eitthvað sem mig langar til með fólki sem mér þykir vænt um. Taki það til sín sem eiga, ég þakka fyrir daginn. Ég verð þó að vara ykkur við því að fara með Helgu í búðir. Það er hættulegt en mér tókst þó að standast allar freistingar furðu vel.

Ég er vel sett fyrir restina af fríinu sem brátt er þó á enda. Ég er með fullt af skemmtilegum bókum sem ég ætla að lesa og nóg að horfa á í tölvunni. Ég vil líka lýsa því yfir að That 70s show eða Svona var það 76 eins og þátturinn heitir í íslenskri þýðingu er uppáhaldsþátturinn minn. Ég gleymdi því í smástund en man það þó núna og ætla mér ekki að gleyma því í bráð. Ég vil þakka sjónvarpinu og videotækinu fyrir það.

Ég held ég hafi aldrei verið svona mikið inni í herberginu mínu og það kemur mér á óvart hvað mér líkar það vel. Vissulega er gólfið teppalagt með fötum, allt meira og minna rykfallið og ljósið lýsir einungir einn fjórða herbergisins upp en þrátt fyrir það hafa þetta verið ánægjulegar stundir.

Þetta er lítið og ómerkilegt blogg. Ég er ekki frá því að það sé meira að segja pínu væmið. Ég vona þó að það sé bara ég.

Gangi ykkur allt í haginn.
Ég kveð að sinni.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Eintóm skemmtilegheit

Í dag, nánar tiltekið fyrir hádegi eða eitthvað í kringum 9 (hann giskar á 5 mín yfir 9), náði pabbi merkum áfanga í lífi sínu. Hálfa öldin er orðin staðreynd og hér með er hann orðinn að hálföldungi. Að því tilefni var peruterta á borðum ásamt öðru góðgæti.

Fleira skemmtilegt, prófin eru búin og fríið byrjað.

Listi yfir það sem ég ætla að gera í fríinu, vei.

* Sofa - Það er gaman og hollt að sofa. Einnig er þetta eitt af fáu sem hefur þessi orð saman í setningu á jákvæðan hátt.

* Skoða afmælisgjafirnar hans pabba nánar - Þá sérstaklega þessa sem hann fékk frá fjölskyldunni en það var The Beatles Anthology. Ég neita öllum ásökunum um það að umræddur pakki hafi verið keyptur einungis vegna þess að mig langaði í hann, það getur aftur á móti ekki skaðað eins og ég sagði. Einnig fékk hann afar áhugaverða draumaráðningabók og Þóra, það kemur margt í ljós varðandi geimveru-lost drauminn minn

* Horfa á lost - Ég er komin þremur þáttum á eftir og er varla talin maður með mönnum lengur. Auk þess hef ég heyrt að spennan fari stig vaxandi.

* Lesa John Lennon bókina - Pabbi fékk hana í jólagjöf en hún varð því miður að víkja fyrir skólabókunum.

* Tónó - Það er ekki frí allsstaðar og tónó hefur verið eilítið vanræktur síðustu tvær vikur eða svo. Einnig er söngpróf á næsta leyti og svo eru tónlistarsögu-, hljómræði- og tónheyrnarprófið eftir. Júhú.

* Hlusta á vínylplötunar sem til eru á heimilinu - Pink floyd, Bítlarnir, Neil diamond, Trúbrot, Hlh-flokkurinn, Elton John, John Lennon, Árný og svo margt, margt fleira.

* Skoða útsöluna sem er í Bókval nánar - Ég hef gaman af bókum og auk þess fékk ég pening fyrir að passa umrædd börn. Ég fékk reyndar líka borgað í hakki og beikoni.

Skemmtilegur listi, vei.

Fleira er ekki planað en ég er opin fyrir öllu, svona nánast.

Annars held ég að samband mitt og klukkunnar eigi eftir að blessast. Hún er nefnilega svo elskuleg að draga inn andann áður en hún slær. Ég verð að játa að það gerir líf mitt töluvert auðveldara.

Einnig verð ég að deila því með ykkur að það var strákur hjá Jay Leno áðan sem spilaði afmælissönginn og crazy frog lagið með höndunum einum saman. Spes.

Er farin að horfa á Lost.
Þangað til næst...

sunnudagur, janúar 22, 2006

"Þú ert á lífi?"

Já, ég er á lífi. Ég get ennþá séð um fjögurra fjörugra barna heimili. Ég neita því samt ekki að það er erfitt að eiga 4 börn.

Pabbi fékk snemmbúna afmælisgjöf í gær. Trekkta veggklukku sem er afar falleg og minnir helst á húsgagn þar sem hún hangir á stofuveggnum. Ég á þó einhvern daginn eftir að fá hjartaáfall þar sem hún slær á hálftíma fresti og ég sýp hveljur og jesúa mig í hvert skipti. Ég tek ennþá viðbragð þegar síminn hringir þannig að ég efast um að ég eigi eftir að venjast klukkunni í bráð. Ég er samt búin að komast að því hvaðan ég hef þessa taugaveiklun en það er frá henni ömmu minni. Hún tekur líka viðbragð þegar síminn hringir.

Það er eitt próf eftir og er það sálfræði. Ég held að það hefði verið vel hægt að sleppa því að búa til þessa sálfræðibók. Á köflum er hún nefnilega með öllu óskiljanleg eða kannski er ég bara svona fattlaus. Ekki get ég lært í stofunni þar sem umrædd klukka truflar mína viðkvæmu einbeitingu. Svo er pabbi með hljómsveitaræfingu úti í skúr þannig að sveitaballalögin hljóma um húsið. Sem er svo sem ekkert slæmt í sjálfu sér. Ég stend mig þó alltaf að því að vera að syngja með. Þannig að ég sit hérna í myrkrinu í herberginu mínu og blogga í staðinn fyrir að læra.

En að einhverju skemmtilegu. Ég er að fara til Danmerkur í byrjun júni. Systir pabba verður nefnilega sextug og er því stórfjölskyldan að fara. Fyrst áttum við Baldur ekki að fá að fara með en þar sem ég er snillingur í að grenja mig inní Danmerkur ferðir urðum við fljótt hluti af planinu. Næst voru prófin nærri því búin að eyðileggja ferðina en henni var bara seinkað um tvo daga. Þannig að það er stanslaus gleði á þessum bæ.

Ég hef þetta ekki lengra. Pavlov og hundarnir hans bíða ólmir eftir mér. Ég var búin að lofa að gefa þeim eitthvað í gogginn. Með því skilyrði þó að hann myndi þrífa upp eftir þá. Þeir eru nefnilega bölvaðir sóðar.

Endum þetta á laginu sem ómar um húsið þessa stundina.

Yfir esjuna til tunglins trúðu mér ... reyndu aftur ég bæði sé og veit og skil


P.S. Ójá, þeir eru að spila bítlalag núna og mér heyrist ekki betur en að hann karlfaðir minn sé að syngja. Close your eyes and I'll kiss you, tomorrow I'll miss you...

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Fagurt er um að líta

Eftir rúman háftíma legg ég land undir fót og yfirgef þennan smábæ. Ég er þó ekki að fara langt. Einungis rétt út fyrir bæinn, tæplega 20 mín að keyra, að bæ sem nefnist Bægisá. Þar mun ég passa börnin mín litlu sem stækkuðu allt í einu á meðan fullorðna fólkið fer í öllru lengri ferð eða alla leið til höfuðborgarinnar. Þar mun ég athuga hvort eitthvað hafi gleymst í barnauppeldinu og læra í íslensku. Ég kem í bæinn í fyrramálið, fer í próf og svo aftur út eftir. Ég ætla samt að vona að ég verði ekki fyrir barðinu á árásagjörnum sængurverum eins og gerðist fyrir nokkrum árum.

Annars bið ég ykkur vel að lifa.

Kær kveðja,
Arnbjörg



P.S. Söngkennarinn minn segir að hormónar geti haft áhrif á kvenraddir og ég er ekki frá því að hann hafi rétt fyrir sér. Það er greinilega ekki nóg að vera með þrjár skiptingar á röddinni heldur þarf maður svo að þola svona bull einu sinni í mánuði. Frábært. Ekki samt láta þetta innskot eyðileggja hátíðleikann sem ríkti hér fyrir ofan.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Myndabloggið mikla


"Ó MÆ GAD MAMMA, ÞETTA ER BRAD PITT" æpti ég upp yfir mig í fyrradag pökkuð inn í sæng og teppi þegar ég var að horfa á Friends á E4, 164. Það kom mér skemmtilega á óvart að sjá hann þarna. Svo horfði ég á fyrsta þáttinn af ANTM á LivingTv, 112. Það var líka skemmtilegt, serían lofar góðu.

En að einhverju sem er ekki alveg jafn skemmtilegt. Það er ennþá skíta kuldi hérna inni og ég er ekki alveg að fíla það. Ég geng um með teppi allan daginn og líður eins og ég sé komin ein 100 ár aftur í tímann og staðsetning mín sé Rússland. Hvað hitastig varðar það er að segja. Svo er líka skítkalt úti. Ég hélt í smástund að ég myndi verða að frostpinna áður en ég kæmist í Tónó. Ég meina í Skautahöllina.

Gamalt brauð sem að rifnar í hengla þegar maður smyr það er heldur ekkert sérstaklega skemmtilegt og ennþá leiðinlegra er að borða það.


Annars eiga Pink Floyd hug minn allan þessa dagana.


Þetta mun vera ég á mínum yngri árum. Umvafin blómum eins og vera ber og já, ég var einu sinni ljóshærð með krullur.

Ég hef ákveðið að vera ekkert að þreyta fólk með leiðinlegum prófabloggum um hvað það sé leiðinlegt að vera til og læra og hvað maður sé svo fallin í þessu og hinu. Þrátt fyrir það þá kallar íslenskubókin á mig og ég hef ákveðið að svara henni. Hún á það inni hjá mér kellan.

Þangað til næst...

mánudagur, janúar 16, 2006

Pink Floyd og graftabólur

Þessi færsla er tileinkuð Pink Floyd. Ég komst nefnilega að því mér til mikillar gleði í gær að það eru til tvær plötur með Pink Floyd í plötusafninu hans pabba. Þannig að í gær var ég að hlusta á plötuna Wish you were here. Hún er góð, virkilega góð. Það er synd að þetta sé búið að vera til hérna inni í stofu í allan þennan tíma án þess að ég vissi af. Hin platan sem er til er The Wall og ég get ekki beðið eftir að hlusta á hana.

Ég fékk samt smá samviksubit þegar ég fékk söguprófið mitt í hendur og "ó shit"-hrollurinn fór um mig. Ég var samt fljót að hrista öll svoleiðis ónot af mér og fór að hugsa um hvað það væri gaman að komast heim og setja plötu á fóninn. Núna ómar Have a cigar í stofunni. Þvílík gleði.

Svona uppgötvanir gera mig samt dálítið dapra líka. Hvernig getur ein manneskja verið uppi á svona vitlausum tíma. Ég er svo á eftir minni samtíð að það er löngu hætt að vera fyndið.

En allavega... hér er smá saga handa ykkur til þess að lesa. Ég skrifaði hana ásamt Baldri bró eftir að ég var búin að kreista þessa þvílíkt stóru bólu sem hafði hreiðrað um sig á nefinu á honum. Ég þurfti þó ekki að nota títuprjón né önnur verkfæri í þetta skiptið. Það skal tekið fram að sagan er byggð á sönnum atburðum.

Einu sinni átti ég kött. Nei djók ég hef aldrei átt kött. Mamma vill það ekki hún segir bara KÖTT og sér rautt ef minnst er á kött... nei annars ég var að ljúga ég hef átt kött meira að segja tvo, önnur hét Branda og hin hét Hosa. Ég man eftir því þegar pabbi var að taka upp heimamyndböndin, þá tókum við kettina inn og gáfum þeim hangikets álegg eða sem sagt magga gaf þeim hangikets álegg. Einu sinni byrjaði branda að gjóta ofan á Baldri bróður sem lá nýfæddur, eða svo gott sem, sofandi úti í vagni. Mamma kom að þessu og brá heldur betur í brún. Branda hafði þá ákveðið að stofna svokalla kettlingaverksmiðju í vagninum með baldur sem yfirmann í starfsmanna aðhaldi. Því miður eyðilagði mamma alla hennar drauma um þessa verksmiðju. Hún eignaðist nú samt þessa kettlinga og Heiða frænka varð yfir ljósmóðir, ég mátti stundum hjálpa til. Hún skýrði einn kettlinginn Mola, því miður man ég ekki hvað hinir hétu. Annars sést það í heimamyndböndunum þegar hún kemur með mús út úr fjárhúsunum og étur hana. Talandi um að vera á réttum stað á réttum tíma og með réttu tækin, sem sagt pabbi. Hosa gerði aldrei neitt merkilegt. Hún gat ekki átt kettlinga en reyndi þó alltaf að stela þeim af Bröndu. Hún var ekki einu sinni öflug í músaveiðunum.


Ps. Núna er ég að hlusta á Wish you were here, sem er ótrúlega flott lag, en þá kemst ég ekki hjá því að hugsa... ætli við séum gullfiskar?

laugardagur, janúar 14, 2006

Sleepover

Dóttir vinkonu mömmu er að gista hjá okkur. Ég er búin að horfa á tvær bíómyndir með henni og hef ekki skemmt mér svona vel síðan að ég uppgötvaði plússtöðvar (þær gerðu mér það kleypt að sofa fram að hádegi í jólafríinu en missa samt ekki af That 70's show). Fyrst horfðum við á Home alone 4 og síðan hvenær hafa home alone myndirnar klikkað spyr ég nú bara? Ætli það verði ekki einnig að teljast mikill plús að hafa einhvern við hliðina á sér sem lætur mann vita þegar eitthvað fyndið er í þann mund að fara að gerast. "Horfðu vel, það sem gerist næst er ekkert smá fyndið", "Næsta atriði er ógeðslega fyndið", "Þú átt sko eftir að hlægja eftir smástund" voru sem sagt setningar sem ég heyrði oft og brugðust aldrei.

Næsta mynd sem við horfðum á var Ice Princess. Hún var víst sérvalin handa mér þar sem ég er svona unglingsstelpa eins og stelpan í myndinni. Það er nefnilega eitt sem ég hef ekki sagt ykkur. Ég er í rauninni mikill stærðfræðingur og hef mikinn áhuga eðlisfræði. Einnig á ég eldgamla skauta inni í skáp sem ég tek fram þegar frystir og skauta á tjörninni sem er úti í garði. Ég ákvað sem sagt að sameina þessi áhugamál mín og allan þann tíma sem ég segist vera í Tónó er ég í rauninni niðri í skautahöll að gera eðlisfræðiverkefnið mitt. En ég gleymdi kannski að minnast á það að ég er að taka alla náttúrufræðibrautina eins og hún leggur sig í fjarnámi frá VMA. Mikið er ég fegin að þetta er komið á hreint, það er nefnilega erfiðara en að segja það að lifa tvöföldu lífi. Annars hitti stelpuskottið beint í mark þar sem ég hafði einkar gaman af þessari mynd.

Núna er hún inni í stofu með gamla sængurverið mitt með Mikka Mús, Andrési Önd og fleirum góðum á, að hlusta á ipodinn minn og horfa á Evu og Adam þættina mína. Já og ég er búin að nudda á henni lappirnar. Hún sagði að ég væri góð í því. Töfraráðið er að nota hnúana.

Ég ætla að vona að hún komi oftar að gista hjá okkur. Annars var hún einnig sérlegur aðstoðarmaður minn í kirkjunni í sumar og spjallaði við túristana af mikilli ákefð. Eitt sinn leit ég af henni í smá stund og þá var hún komin í hörkusamræður við breska heldri konu.

Ég ætti samt kannski að hugsa minn gang þegar 9 ára gömul stelpa hneykslast á mér fyrir að vera hrædd við Mr. Tumnus í Narníu.

Þangað til næst...

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Leiðarljós í dag

Cross Creak

Reva: (reið) Hvernig dirfistu að vera með öðrum kvenmönnum en mér?
Josh: (hneykslaður) Þú ert dauð?!
Reva móðgast og hverfur.
Josh: (æstur) Djöfull er þetta ljótur lampi. Best að henda þessu ógeði, losa sig við það fyrir fullt og allt.
Reva birtist aftur.
Reva: (örvæntingarfull) Ekki henda lampanum, þú veist ég elska þennan lampa.
Josh: Hvað hefuru á móti þessum konum?
Reva: Þær eru þér ekki samboðnar, þú ert of góður fyrir þær.
Josh: Þú ert bara afbrýðisöm.
Reva móðgast og hverfur aftur


Á snekkju Spauldinganna

Lucy: (hágrátandi og með miklum óhemjuskap) Brent nauðgaði mér, ég verð aldrei örugg aftur. Ég á aldrei eftir að jafna mig. Ekki horfa á mig Alan Michael.
Alan Michael: (samúðarfullur) Það skiptir mig engu máli hvað kom fyrir þig Lucy. Ég skal gæta þín.


Fyrir utan gistihúsið

Matt: Þú vilt ekki tala um framtíð okkar saman. Við hvað ertu hrædd?
Vanessa: (hálfgrátandi) Ég er hrædd við það að þú farir frá mér þegar ég verð orðin gömul og þú verður ennþá ungur.
Matt: Ég er líka hræddur við að missa þig.
Þau faðmast og kyssast innilegum kossi.



This has been Guiding Light.
Be sure to be with us tomorrow for another, full hour, of Guiding Light.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Afmæli, kuldi og ljóstillífun

Amma mín á afmæli í dag og er hún orðin 84 ára gömul. Þess vegna var fjölskyldunni boðið í kvöldmat. Það er gaman að fara í mat til ömmu því að það er alltaf ís í eftirrétt og ég má borða eins mikið af honum og ég vil. Auðvitað varð ég að standa undir nafni sem ísisti fjölskyldunnar. Brátt þarf Þorsteinn frændi að fara að vara sig. Pabbi verður svo 50 í þarnæstu viku eða 24. janúar. Nóg er sem sagt af veislumat og öðru góðgæti þó að jólin séu búin.

Það er búið að vera ískalt hérna heima undanfarna daga eða síðan að það kólnaði í veðri. Þá er ekki bara mér kalt sem væri svo sem ekki frásögur færandi heldur allri fjölskyldunni. Ég kom með þá kenningu að við værum bara orðin svona kaldrifjuð. Mamma var ekki sammála, hún segir að gluggarnir í húsinu séu orðnir lélegir. Það er kannski rökréttara en mér fannst þó mín kenning flottari.

Ef ég skyldi nú taka upp á því að falla í náttúrufræði þá ætla ég ekki að taka það eins nærri mér og ég hefði gert. Ég veit allavega hvað ljóstillífun er. Annað heldur en hún móðir mín.

Ég horfði á kastljósið í gær. Er það málið að hætta að borða kjöt og fisk og fara að lifa á baunum og fræjum?

Þangað til næst...

mánudagur, janúar 09, 2006

Janis Joplin, kjöris og náttföt

Eins og glöggir hafa kannski tekið eftir þá er þetta ekki ég þarna á myndinni. Þetta er Janis Joplin bara til þess að fyrirbyggja allan misskilning. Ég var að leika mér hérna í gær með liti og reyna að setja inn mynd. Sem tókst, gleðigleði. Er samt búin að vera að reyna núna að setja inn mynd af mér en tölvan er með einhvern móral og segir að hún sé of stór alveg sama hvað ég minnka hana. Það verður bara að hafa það. Þið sitjið uppi með Janis Joplin þangað til á morgun. Ekki að það sé slæmt, hún var hörkukvendi eins og allir vita auðvitað.

Það er gaman að fara út og kaupa sér ís í náttfötunum sínum. Það gerði ég í gærkvöldu ásamt Þóru, hún mætti í náttbuxum. Það að borða bragðaref frá videobarnum í náttfötunum sínum er himneskt. Mmmm, kjörís. Það er líka sérstaklega gaman að fara með Þóru í ísferðir. Hún á nefnilega erfitt með að torga ísnum sínum og þá fæ ég að draga hana að landi. Ég elska ís.

Það er samt ekki jafngaman að vera andvaka. Ég sofnaði ekki fyrr en upp undir morgun eða rúmlega hálf sex. Þar af leiðandi svaf ég líka heldur lengur og missti af fjóru fyrstu tímunum. Það leiðir líka til þess að ég er orðin frekar þreytt núna enda er ég líka búin að sitja yfir náttúrufræði- og þýskuglósum, sem er ekkert alltof skemmtilegt heldur. Kannski ég smeygi mér bara í náttfötin og horfi á lokaþáttinn af CSI.

Þangað til næst...

sunnudagur, janúar 08, 2006

Fatahengi, Töfraflautan og Ófeigur Bárðason

Í gær var ég fatahengisdama á nýársdansleik í Ketilhúsinu. Þegar gestirnir tóku að streyma vissum ég og sú sem var með mér ekki ennþá hvað við áttum nákvæmlega að gera. Sú sem átti að upplýsa okkur og koma með miðana sem við áttum að nota í fatahenginu mætti hálftíma eftir að húsið opnaðist. En þetta reddaðist eins og allt annað. Var svolítið panik í smástund en með mikilli skipulagningu, ústjónarsemi, kústskafti, málningarskafti og að ógleymdu límbandi sem hélt herlegheitunum saman var komið kerfi sem svínvirkaði. Já, ég gleymdi kannski að segja að fatahengin hófu að hrynja enda ekki gerð fyrir þunga allra þessara pelsa sem voru á svæðinu. það skýrir sem sagt tilkomu kústs- og málningarskaftanna í upptalningunni áðan.

Annars var þetta hin ágætasta skemmtun. Komu reyndar dauðar stundir þar sem ég var þarna frá því kl. 18 til 3:30. Ég smakkaði kengúrukjöt og dádýrakjöt. Kengúran var virkilega góð. Smakkaði einnig hörpuskel, hún er eins og fiskibolla á bragðið.

Prófin eru á næsta leiti eins og flest allir vita. Lítið hefur verið um lærdóm þessa helgina. Ætlaði að vera mjög dugleg í gær en litla krúttípúttið mitt kom í heimsókn og auðvitað þurfti að sinna honum. Dagurinn í dag hefur svo einkennst af náttfötum, það er gaman að eiga náttföt, ég hef nefnilega ekki átt náttföt síðan ég var lítil eða minni, aldrei hef ég nú lítil verið nema kannski þegar ég fæddist þá var ég einungis 49 cm að lengd. Ég var samt fljót að ná mér af þeim lítilheitum.

Þegar ég var búin að koma mér fyrir inni í herbergi með náttúrufræðibókina og glósur þá heyrði ég innan úr stofu upphafs tóna Töfraflautunnar eftir Mozart. Þegar ég fór og kannaði málið þá var víst stöð 157, Artsworld, einmitt að sýna umrædda óperu. Svona er nú gervihnattadiskurinn skemmtilegur. Auðvitað varð ég að horfa á þennan menningarviðburð og minnast gamalla tíma úr Ketilhúsinu fyrir um það bil ári síðan. Gaman var að sjá sítalandi hræðslupúkann Papageno, Tamino að farast úr prinsstælum, Næturdrottinguna reiðari en nokkru sinni fyrr og Monostatos svartari en nokkru sinn fyrr. Sarastro var bara bassi og Pamina ósköp sæt. Ég tók samt eftir því að brandararnir voru ekki eins fyndnir á þýsku og íslensku.

Gaman var að snjá Næturdrottninguna í frægu aríunni. Hún var nefnilega rosalega reið og söng af krafti nema á háutónunum. Þá komu rosalega veikir og sætir flaututónar út úr henni. Svo sveiflaði hún puttanum skemmtilega að Paminu. Ég dró þá ályktun að hún væri að leggja áherlslu á orð sín og skamma Paminu. Þetta leit samt frekar furðulega út þar sem hún var svo upptekin af því að ná tónunum að það var eins og hún gleymdi að leika á meðan. Þetta var spes. En hún var í flottum kjól.

Það er kveikt á sjónvarpinu og þar í Kastljósinu er Ófeigur, nei Ólafur,í viðtali. Ég veit ekki hvort það verði eitthvað meira úr lærdóm þessa helgina. Nei sko, núna eru þeir að sýna atriði úr spaugstofunni. Ófeigur Bárðason er klárlega maðurinn.

Þangað til næst...

P.S. Ég gleymdi að minnast á það að ég þurfti að vera í svörtum fötum í gær. Þannig að í hátt í 8 klst. var ég, Arnbjörg Jónsdóttir, klædd í svart frá toppi til táar. Það sem meira er að það var ekki eins óþægilegt og ég hélt það yrði.

laugardagur, janúar 07, 2006

Einu sinni er allt fyrst...

Þetta mun vera bloggið mitt.